Foreldrafélag Hrafnagilsskóla ákvað í haust að gefa nemendum gjöf sem myndi nýtast í frímínútum og frjálsum tíma. Stjórn félagsins óskaði eftir tillögum frá nemendum og eftir umræður og hópavinnu á unglingastigi kom í ljós að mikill meirihluti nemenda óskaði eftir þythokkýborði. Það leið ekki á löngu þar til glæsilegt þythokkýborð var komið í Hyldýpið sem er aðstaða unglinganna en yngri nemendur nýta rýmið á tilfallandi viðburðum.
Nemendur á unglingastigi eru mjög glaðir með gjöfina og nýta hana vel alla daga. Með aukinni afþreyingu í frímínútum, ásamt símafríi í skólanum, teljum við að nemendur þjálfi félagsfærni sína og njóti betur samvista við hvert annað.
Á myndinni má sjá fulltrúa úr fráfarandi stjórn foreldrafélagsins, þær Margréti Hrund, Huldu Rún og Ester Ósk, ásamt Ólöfu Millu Valsdóttur og Hauki Skúla Óttarssyni, fulltrúum úr nemendaráði. Nemendur og starfsfólk Hrafnagilsskóla þakka foreldrum fyrir höfðinglega gjöf, farsælt samstarf og hlýhug til skólans.