Í Hrafnagilsskóla er áralöng hefð fyrir því að halda hátíð á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember. Í ár var engin breyting þar á og buðu nemendur fjölskyldum og íbúum sveitarinnar á hátíð í tali og tónum.
Þemað í ár tengdist þjóðtrú Íslendinga og nemendur höfðu unnið að ýmsum verkefnum tengdum álfum, huldufólki og kynjaskepnum dagana fyrir hátíðina.
Unnin voru ýmis fjölbreytt verkefni. Nemendur fræddust meðal annars um íslensk skrímsli og kynjaskepnur og nú er ekki að finna nokkurn innan skólans sem ekki kann skil á því hvað sé nykur eða hvernig hverafuglar bera sig að. Nemendur bjuggu einnig til sínar eigin kynjaskepnur, lásu þjóðsögur og söfnuðu sönnum álfasögum, æfðu álfaleikrit og veltu fyrir sér því helsta í álfatískunni. Afraksturinn var síðan sýndur á hátíðinni sjálfri. Á hátíðinni hófu nemendur í 7. bekk æfingarferli sitt fyrir Stóru upplestrarkeppnina og lásu að þessu sinni um þjóðsagnasafnarann Jón Árnason og einnig brot úr þjóðsögum og ljóðum. Hátíðin á Degi íslenskrar tungu er alltaf hin besta skemmtun og allt skólasamfélagið fylltist íslensku þjóðarstolti þegar nemendur skólans stóðu fyrir framan gesti og sungu lögin; Á íslensku má alltaf finna svar, kvæðalagið, Uppi í háa hamrinum og lag hátíðarinnar sem að þessu sinni var lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar; Eru álfar kannski menn?