Pangea stærðfræðikeppni

Pangea stærðfræðikeppnin er fyrir alla nemendur 8. og 9. bekkja grunnskóla landsins. Aðalmarkmið keppninnar er að vekja áhuga hjá ungu fólki á stærðfræði, hvetja þau sem halda að stærðfræði sé of erfið til dáða með því að sýna þeim að þau geti afrekað miklu ef þau reyna, og hvetja efnilegustu nemendurna til áframhaldandi afreka. Keppnin er haldin í yfir 20 löndum í Evrópu og á Íslandi var hún var fyrst haldin vorið 2016 en þá tóku yfir 1000 nemendur þátt. Í ár var þátttökumet á Íslandi en tæplega 5000 nemendur tóku þátt víðsvegar um landið. Tvær undankeppnir voru haldnar í febrúar og mars þar sem kennarar fóru yfir prófin og sendu skipuleggjendum. Stigahæstu nemendunum er síðan boðið í úrslitakeppni sem var haldin í MH í Reykjavík. Til að gera daginn hátíðlegan og fagna góðum árangri keppenda var boðið upp á skemmtiatriði og veitingar fyrir keppendur og aðstandendur þeirra.


Margir nemendur í 8. og 9. bekk í Hrafnagilsskóla komust áfram í 2. umferð keppninnar og þrjár stúlkur í 9. bekk komust alla leið í úrslitin sem haldin voru laugardaginn 15. apríl í Reykjavík. Tvær þeirra fóru suður og kepptu til úrslita, þær Lilja Karlotta Óskarsdóttir og Sara Dögg Sindradóttir. Þær stóðu sig mjög vel enda eru þær einstaklega lausnamiðaðar og góðar í stærðfræði. Við óskum þeim innilega til hamingju og vonum að árangur þeirra sé öðrum innblástur og hvatning.