Þriðjudaginn 7. febrúar fór útför Sigurðar Aðalgeirssonar, fyrrverandi skólastjóra Hrafnagilsskóla, fram í Akureyrarkirkju. Sigurður var fyrsti skólastjóri skólans frá árinu 1971 og í hartnær þrjátíu ár starfaði hann við skólann ásamt konu sinni Sigurhönnu J. Salómonsdóttur. Hrafnagilsskóli, sem þá var eingöngu unglingaskóli, var vígður við hátíðlega athöfn 3. desember 1972 en rúmu ári fyrr hófst kennsla í húsnæði heimavistarinnar á meðan að nýja skólahúsnæðið var reist.
Á þessum fyrstu árum komu nemendur skólans ekki einungis úr gömlu hreppunum þremur og af Svalbarðsströnd heldur komu einnig hópar unglinga frá Þelamerkurskóla, Stórutjarnarskóla, Grenivík, Hrísey og Grímsey. Nemendur gistu á heimavist á virkum dögum en fóru heim um helgar.
Árið 1989 var rekstri heimavistar við skólann formlega hætt og árið 1992 var allt skólahald í Eyjafjarðarsveit sameinað í einn skóla undir stjórn Sigurðar þ.e. Hrafnagilsskóla ásamt skólaseli í Sólgarði. Hann stýrði sameinuðum Hrafnagilsskóla til ársins 1998 þegar hann lét af störfum og flutti til Húsavíkur ásamt konu sinni.
Í fótspor þeirra, hjóna Sigurðar og Hönnu, hafa bæði Björk, dóttir þeirra, og Silja Garðarsdóttir, barnabarn þeirra, fetað og valið Hrafnagilsskóla sem vinnustað sinn. Við sendum Hönnu, börnum þeirra og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur og þökkum fyrir hönd Eyjafjarðarsveitar fyrir þeirra mikilvæga starf við skólann. Samstarfsfólk og fyrrverandi nemendur minnast Sigurðar með hlýju og muna eftir góðvild hans, festu og mildi.

Myndin var tekin á afmælishátíð Hrafnagilsskóla 16. nóvember s.l.
Þrír skólastjórar Hrafnagilsskóla:
Sigurður Aðalgeirsson, Karl Frímannsson og Hrund Hlöðversdóttir.

  • Árshátíðin verður haldin í Laugarborg fimmtudaginn 23. mars milli klukkan 13:00 og 15:00.  Nemendur yngsta stigs sýna leikrit sem er samið upp úr bókinni ,,Langelstur í bekknum“. Að loknum skemmtiatriðum stjórnar Elín Halldórsdóttir dansi. Aðgangseyrir er 1.500 kr. fyrir 16 ára og eldri, 500 kr. fyrir börn á grunnskólaaldri (aðra en sýnendur) og frítt fyrir [Meira...]

  • Sunnudagskvöldið 12. mars kl. 20.30 stendur Foreldrafélag Hrafnagilsskóla fyrir fræðslu um forvarnir gegn fíkniefnum. Hildur H. Pálsdóttir leiðir fræðsluna og er fyrirlesturinn unninn út frá hennar eigin reynslu sem foreldri og einnig út frá spurningum nemenda. Fyrirlesturinn verður í stofu 7 (á miðstigsgangi).

  • Skjótt skipast veður í lofti. Eins og allir vita gátum við ekki farið í Hlíðarfjall í morgun eins og áætlað var. Í staðinn förum við í fyrramálið og verður tilhögun alveg eins og hún átti að vera í dag, t.d. leiga á skíðabúnaði, rútur og nesti. Allir nemendur fara heim kl. 14:00 nema þeir sem [Meira...]