Skjótt skipast veður í lofti. Þar sem sóttvarnarreglum hefur verið breytt getum við ekki haldið hátíð á Degi íslenskrar tungu í dag 16. nóvember.

Ráðgert hafði verið að vera með allan nemendahópinn saman í íþróttahúsinu og streyma hátíðardagskránni til foreldrar og annarra gesta. Þar sem einungis 50 manns mega koma saman er það ekki lengur hægt.
Í stað streymisins ætlum við að safna saman ljósmyndum og myndböndum af afrakstri og vinnu þemadaga í síðustu viku og setja inn á sérstaka netsíðu. Slóðinni verður síðan deilt með ykkur í lok vikunnar eða í byrjun þeirrar næstu.

Aðrar ráðstafanir sem við höfum gripið til er að dreifa nemendum í matartímum og nýtum við hliðarsalinn Félagsborg.
Samverustundir eru einnig með breyttu sniði. Við hittum hvern hóp (með 50 nemendum eða færri) einn morgun í viku.
Þeir foreldrar og gestir sem eiga erindi inn í skólann eru beðnir um að bera andlitsgrímur.

Við erum orðin ýmsu vön hér í skólanum á covid-tímum og ansi sveigjanleg. Við gerum eins og áður allt okkar til að börnum ykkar líði sem allra best hér hjá okkur og tökum þessum breytingum með jákvæðni og yfirvegun.