Undanfarin ár hefur stúlkum á unglingastigi verið boðið á viðburð sem nefnist Stelpur og tækni og er á vegum Háskólans í Reykjavík, SKÝ og Samtaka atvinnulífsins. Markmiðið með verkefninu er að vekja áhuga stúlkna á ýmsum möguleikum í tækninámi og störfum, brjóta niður staðalímyndir og sýna þeim fjölbreytileikann sem einkennir tækniiðnaðinn.

Kennarar á unglingastigi hafa á sama tíma skipulagt náms- og starfskynningu fyrir drengina á störfum sem konur sinna að miklum meirihluta. Drengirnir fræddust um hin ýmsu störf og tóku þátt í umræðum um karllæg og kvenlæg gildi og störf. Flestir voru sammála um að umönnunarstörf og kennsla myndu flokkast sem ,,kvennastörf“. Við fengum góða gesti til að spjalla við strákana um hvernig það er að fara í nám og vinna við störf sem flestir telja vera óhefðbundið fyrir þeirra kyn. Það voru fyrrverandi nemendur Hrafnagilsskóla, Jónas Godsk Rögnvaldsson og Eydís Sigurgeirsdóttir sem komu spjölluðu um reynslu sína. Jónas lærði hjúkrunarfræði og Eydís hefur unnið mörg störf þar sem konur eru í minnihluta og er nú slökkviliðsmaður. Jónas og Eydís eru bæði slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hjá Slökkviliði Akureyrar.

Það var frábært að fá gesti í skólann og nemendur kunna svo sannarlega að meta heimsóknir.

Myndir frá heimsókninni