Föstudaginn 19. mars næstkomandi verður haldin árshátíð nemenda á yngsta stigi. Nemendur, með aðstoð kennara, setja upp sýningu um Gullgæsina en ævintýrið um hana kemur úr safni Grimmsbræðra.

Vegna samkomutakmarkana er ekki hægt að halda árshátíð með hefðbundnum hætti og verður sýningin því tekin upp með áhorfendum úr skólanum.

Nemendur yngsta stigs bjóða til sölu slóð á leikritið og kostar hún 1.000 krónur. Pantanir þurfa að berast sem fyrst til Nönnu ritara á netfangið nanna@krummi.is og þar þurfa að koma fram upplýsingar um hver sé kaupandi og netfangið sem senda á slóðina á.

Ágóðinn verður nýttur í þágu nemenda, t.d. í lyftugjöld í skíðaferð, dagsferð nemenda í 4. bekk og fleira skemmtilegt.

Við hvetjum sem flesta, ömmur og afa, frændur og frænkur, nágranna og sveitunga til þess að sjá þessa skemmtilegu sýningu og styrkja nemendur í leiðinni.

Við þökkum stuðninginn,
nemendur á yngsta stigi í Hrafnagilsskóla