Eftir hertar sóttvarnarreglur 30. október ríkir nokkur óvissa varðandi fyrirkomulag skólahalds næstu vikur.
Samkvæmt því sem kom fram í máli menntamálaráðherra verða næstu dagar nýttir til skipulags á skólastarfi en einhugur er um að halda skólastarfi gangandi með einhverjum hætti.

Mánudaginn 2. nóvember verður starfsdagur í Hrafnagilsskóla og því hvorki kennsla né frístund þann daginn. Þetta er gert til að starfsfólk fái tíma til að skipuleggja skólastarfið í ljósi breyttra aðstæðna. Föstudaginn 6. nóvember stóð til að hafa starfsdag og stefnum við að því að hafa skóla þann dag ef aðstæður leyfa.

Ljóst er að skólastarf tekur nokkrum breytingum. Nú þegar er búið að gefa út að einungis 10 fullorðnir mega vera í sama rými og tveggja metra reglan mun gilda bæði um nemendur og starfsfólk.

Frá og með mánudeginum skiptum við nemenda- og starfsmannahópnum í þrennt. Hver hópur er í sem minnstu samneyti við hina hópana. Mögulega þurfum við að skipta starfsmannahópnum enn frekar en það kemur í ljós um helgina.

Stundaskrá raskast umtalsvert með nýju skipulagi en kennarar skipuleggja kennsluna eins og hægt er með tilliti til aðalnámskrár grunnskóla. Þetta mun allt skýrast betur eftir helgi.

Gert er ráð fyrir að allar kennslugreinar þar sem nemendur voru áður í blönduðum hópum falli niður. Það eru til dæmis valgreinar á unglingastigi, tómstundahringekja og danskennsla. Einnig fellur íþrótta- og sundkennsla niður tímabundið en í staðinn getum við vonandi boðið upp á hreyfistundir úti á skólalóð eins og síðasta vor.
Vegna þessarar skerðingar keyra skólabílar heim klukkan 12:40 alla daga. Að öllum líkindum verður grímuskylda í skólabílum og jafnvel víðar innan skólans.
Óljóst er hvort hægt verði að hafa frístund opna eftir skóla. Frekari upplýsingar verða birtar þegar þær liggja fyrir.