Hér koma fréttir úr Hrafnagilsskóla.
Þessar vikur sem við höfum verið með aðskildar starfsstöðvar hafa gengið ótrúlega vel og erum við afar ánægðar með að hafa ekki þurft að grípa til lokana eða frekari takmarkana. Eins og við höfum áður minnst á erum við stoltar af nemendum okkar og starfsfólki sem hefur mætt þessum fordæmalausu tímum af ró og lausnamiðaðri hugsun.
Á mánudaginn 4. maí tekur við hefðbundið skólastarf þ.e. fullur skóladagur með sömu stundaskrá og áður, frímínútur verða á sama tíma, íþróttir og sund hefjast aftur og matartímar verða eins og þeir voru áður. Í mötuneytinu munu nemendur skammta sér sjálfir en við ætlum að teygja úr matartímanum yfir lengri tíma þannig að við náum að sótthreinsa eins mikið og við getum á milli hópa. Frístund verður aftur í boði fyrir þá nemendur í 1. – 4. bekk sem þar voru áður skráðir. Félagsmiðstöðin Hyldýpi mun einnig taka til starfa á ný.
Þrátt fyrir heilmiklar tilslakanir frá og með 4. maí munum við halda áfram með handþvott og spritt og sótthreinsa rými eins og við getum. Í þessum tilslökunum gilda engar fjöldatakmarkanir um börn og 2ja metra reglan gildir ekki um þau. Hins vegar þarf að takmarka fjölda fullorðinna við 50 manns og viðhafa 2 metra reglunni eins og hægt er.
Skólar eru beðnir um að takmarka umgengni fullorðinna, annara en starfsmanna, í skólann. Því biðjum við foreldra að bíða með heimsóknir á samverustundir og inn í kennslustundir til haustsins. Hægt verður að halda foreldrafundi í stofu 10 með því að sótthreinsa á milli funda.
Í maí er mikið um uppbrot og skemmtilega viðburði hjá okkur. Í því sambandi má meðal annars nefna þemadaga sem verða í lok mánaðarins, skólaferðalag 10.bekkjar, UNICEF daginn, vorferð 4. bekkjar, hjólaferðir hjá mið.- og unglingastigi og gönguferð, hjóladag og grill hjá nemendum yngsta stigs.
Valgreinar á unglingastigi hafa fallið niður undanfarnar vikur og þar sem ný valgreinalota átti að byrja einmitt á þeim tíma er ekki forsvaranlegt að byrja á henni nú í maí. Við ætlum því að vera með annað fyrirkomulag og það hefur verið útskýrt fyrir nemendum. Nemendur á unglingastigi fara því heim kl. 14:00 alla daga. Við viljum vekja athygli þeirra sem hafa nýtt skólabíl kl. 15:30 á miðvikudögum á að sú ferð fellur niður.
Að öllum líkindum verða skólaslit með öðru móti þetta skólaárið. Það á eftir að útfæra skipulagið nákvæmlega en við vonumst til að geta haldið útskrift fyrir nemendur í 10. bekk og fjölskyldur þeirra að kvöldi 4. júní.