Næstkomandi föstudag 31. janúar mun stjórn Foreldrafélags Hrafnagilsskóla í samvinnu við skólann, bjóða upp á fyrirlesta annars vegar fyrir nemendur á unglingastigi og hins vegar fyrir foreldra og forráðamenn.

Þau Þorsteinn V. Einarsson og Sólborg Guðbrandsdóttir verða með tvo fyrirlestra á bókasafninu. Fyrri fyrirlesturinn er fyrir unglingana og verður hann klukkan 10:00. Seinni fyrirlesturinn verður fyrir foreldra og aðra gesti klukkan 12:40-14:00.

Þorsteinn heldur úti síðunni karlmennskan.is auk þess að vera með síðuna, Karlmennskan, á instagram. Aðalmarkmið fyrirlestra hans er að hrista upp í viðteknum hugmyndum um karlmennsku og kynhlutverk, benda á endurteknar birtingarmyndir karlmennsku og staðalmyndir um kyn og svara því hvers vegna og hvernig karlar geti tekið þátt í að skapa jafnrétti í sínu umhverfi.

Sólborg fer yfir eðlileg samskipti og hegðun á netinu og annars staðar auk þess að ræða sambönd, kynlíf, mörk og ofbeldi. Sólborg stofnaði síðuna, Fávitar, á instagram en henni fylgja nú yfir 26 þúsund manns. Fávitar er stofnað sem átak gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi. Einnig heldur hún úti hljóðvarpi á YouTube þar sem rætt er við fólk um mismunandi vinkla jafnréttis.

Allir eru velkomnir á fyrirlesturinn eftir hádegi.