Nú styttist í jólafrí sem hefst að loknum litlu jólunum um hádegi föstudaginn 20. desember.

Það hefur ýmislegt skemmtilegt verið brallað þessa síðustu daga. Meðal fastra liða eru kakóferðir í Aldísarlund, jólaföndur, tómstundadagur á miðstigi og bæjarferð á unglingastigi.

Fimmtudaginn 19. desember verður hátíðarkvöldverður og skemmtun hjá nemendum á unglingastigi. Hátíðarkvöldverðurinn hefst kl. 19:00 í mötuneyti skólans og eftir að starfsfólk og nemendur hafa átt notalega stund saman fara unglingarnir ásamt starfsmönnum félagsmiðstöðvar yfir í Hyldýpið og enda kvöldið þar. Skólabílar keyra báðar leiðir.

Litlu jólin verða föstudaginn 20. desember milli kl. 10:00 og 12:00. Skólabílar keyra þennan dag og ættu rútur að vera 1 klst. og 45 mínútum seinna þennan morgun en á venjulegum skóladegi. Á litlu jólunum höfum við þann háttinn á að 1.-7. bekkingar hittast í heimastofum og fara með kennara í íþróttasalinn. Nemendur 4. bekkjar flytja helgileik og allir ganga í kringum jólatré. Hver veit nema skrítnir karlar í rauðum fötum láti sjá sig. Að því loknu á hver bekkur notalega stund í heimstofu með umsjónarkennara. Unglingastigið byrjar á heimsókn í kirkju þar sem nemendur flytja sögu eða ljóð og tónlistaratriði. Að því loknu fer hver bekkur í heimastofu. Eins og áður sagði lýkur skóla um kl. 12:00 þennan dag og skólabílar keyra heim.

Frístund er lokuð frá og með 20. desember og opnar aftur mánudaginn 6. janúar 2020.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá mánudaginn 6. janúar 2020.