Dagana 12. – 14. nóvember voru þemadagar hér í skólanum í tengslum við Dag íslenskrar tungu og var þemað að þessu sinni eldur og ís. Unnið var í blönduðum aldurshópum innan hvers stigs að fjölbreyttum verkefnum sem tengdust þemanu.

Á yngsta stigi fengu nemendur tækifæri til að baka, mála, gera klippimyndir, búa til eldfjöll og leikþætti um fjöllin sex ásamt því að semja ljóð.

Nemendum á miðstigi var skipt í þrjá hópa og fór hver hópur á þrjár stöðvar. Ein stöð var matreiðslustöð þar sem nemendur bjuggu til ís og bökuðu vöfflur. Önnur stöð var hreyfistöð þar sem nemendur fóru í leiki sem kallast Jakahlaup og Ferðin á Norðurpólinn. Á þriðju stöðinni gerðu nemendur veggspjöld um íslensk eldfjöll.

Unglingastig vann á svipuðum nótum með andstæður elds og íss. Nemendur rannsökuðu hamfarir á Íslandi s.s. eldgos og snjóflóð, bjuggu til líkön af eldfjöllum og byggðu snjóhús úr sykurmolum. Einnig gerðu nemendur skemmtileg tónlistarmyndbönd þar sem lög tengd þemanu voru klippt saman við myndir og myndbönd.

Föstudaginn 15. nóvember sýndu nemendur hluta af afrakstri vinnu sinnar á veglegri hátíð í íþróttahúsinu. Þessi hátíð er árviss viðburður í framhaldi af þemadögum og tengdur Degi íslenskrar tungu. Við erum svo lánsöm að aðstandendur og sveitunar eru duglegir að mæta á viðburði í skólanum og var engin undantekning á því í þetta skipti.

Kærar þakkir fyrir komuna.