Minning
Á fallegum vordegi í upphafi nýrrar skólaviku var einum af sonum Hrafnagilsskóla kippt frá okkur. Í dag kveðjum við einstakan dreng, Óliver Einarsson, með sorg og söknuð í hjarta.
Óliver var kraftmikill, kappsamur og duglegur strákur. Hann lífgaði oft og tíðum upp á skólastarfið með ýmsum uppátækjum. Hann var samt umfram allt góður drengur í alla staði, vinur vina sinna og bræddi alla með fallega brosinu sínu. Hann var mikill íþróttamaður og vann hvern titilinn á fætur öðrum í frjálsum íþróttum sem hann stundaði af miklu kappi. Ef minnst var á keppni var Óliver til í slaginn. Í vetur tók sjöundi bekkur þátt í nokkrum verkefnum þar sem búin voru til myndbönd og þau send inn í keppnir. Þar var Óliver fremstur í flokki og gekk í öll hlutverk með félögum sínum, skrifaði handrit, fann búninga, lék og klippti til myndböndin.
Fráfall Ólivers hefur lamað skólann og nærsamfélagið. Í sorginni þykir okkur afar vænt um að hafa fengið að kynnast Óliver og fylgt honum þau ár sem hann fékk að vera með okkur. Tilhugsunin um þann missi sem fjölskylda Ólivers gengur í gegnum er óbærileg. Elsku Einar, Heiðdís Fjóla, Valgeir, Lovísa og Alex, stórfjölskylda og aðstandendur, við sendum ykkur okkar hlýjustu samúðarkveðjur. Minning Ólivers mun lifa um ókomna tíð sem ljós í hjörtum okkar.
Einnig senda bekkjarfélagar Ólivers í 7. bekk og foreldrar þeirra fjölskyldunni sínar innilegustu samúðarkveðjur. Góður vinur og bekkjarfélagi mun lifa í hjörtum þeirra um ókomin ár.
Allt hið liðna er ljúft að geyma
– láta sig í vöku dreyma.
Sólskinsdögum síst má gleyma,
segðu engum manni hitt.
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt.
(Jóhannes úr Kötlum)
Fyrir hönd nemenda og starfsmanna Hrafnagilsskóla og skólasamfélags Eyjafjarðarsveitar,
Hrund Hlöðversdóttir skólastjóri.
(Minningargrein birt í Morgunblaðinu 31. maí 2017).