Í nóvember ár hvert eru þemadagar í Hrafnagilsskóla og lýkur þeim með hátíð á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember. Í ár var unnið með þemað fjölmenning. Nemendur unnu í aldursblönduðum hópum innan hvers stigs og verkefnin voru fjölbreytt. Nemendur á yngsta stigi fjölluðu um ólíkar þjóðsögur, trúartákn, þjóðbúninga og bökuðu sænsk Lúsíubrauð. Einnig fengu allir nemendur að skoða og smakka framandi ávexti og lykta af alls konar kryddum. Foreldrar frá Færeyjum, Þýskalandi, Hollandi og Svíþjóð komu í heimsókn og sögðu nemendum frá menningu og siðum frá sínu heimalandi.
Nemendur á miðstigi unnu með fjölmenningarlegar spurningar og kannanir á meðal nemenda. Einnig elduðu þeir súpu frá Litháen og eplaskífur frá Danmörku. Nemendur 7. bekkjar lærðu um Bólu-Hjálmar og æfðu upplestur á ljóðum hans. Eftir áramót munu 7. bekkingar keppa í Stóru-upplestrarkeppninni og undirbúningur hófst á þemadögum.
Á unglingastigi var unnið með spil og leiki frá ýmsum löndum, tónlist og kvikmyndir alls staðar að úr heiminum og einnig unnu nemendur verkefni um ólíka menningarheima.
Undir styrkri stjórn Maríu Gunnarsdóttur tónmenntakennara lærðu allir nemendur lagið Í réttu ljósi úr Ávaxtakörfunni eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson. Einnig lærðu allir nemendur rússneskan dans sem heitir Trojka.
Þetta voru mjög skemmtilegir dagar bæði fyrir nemendur og starfsfólk. Markmiðið var að auka víðsýni og virðingu, efla samhygð og fræðast um ólíka menningarheima.