Lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar 1. mars 2016 í Hrafnagilsskóla (56)Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin þriðjudaginn 1. mars í Hrafnagilsskóla. Fulltrúar frá Grenivíkurskóla, Hrafnagilsskóla, Valsárskóla og Þelamerkurskóla kepptu í upplestri, tveir frá hverjum skóla. Hver lesari las sögubrot úr sögunni  „Flugan sem stöðvaði stríðið“ eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, ljóð eftir Guðmund Böðvarsson og ljóð að eigin vali.  Fulltrúar Hrafnagilsskóla í Stóru upplestrarkeppninni  frá síðasta skólaári þær Birta Rún Randversdóttir og Kristbjörg Heiður Kristjánsdóttir lásu upp kynningu á skáldum keppninnar. Dómarar voru Bryndís Símonardóttir, Ingibjörg Einarsdóttir, formaður Radda – samtaka um vandaðan upplestur og framsögn og Sveinn Rúnar Sigmundsson.

Allir lesarar stóðu sig með prýði og var dómurum vandi á höndum. Veittar eru viðurkenningar fyrir þrjú efstu sætin en þau skipuðu að þessu sinni:

  1. Klara Sjöfn Gísladóttir frá Grenivíkurskóla.
  2. Svanhildur Marín Valdimarsdóttir frá Valsárskóla.
  3. Áslaug María Stephensen frá Hrafnagilsskóli.

Til að gera lokakeppnina sem hátíðlegasta voru tvö tónlistaratriði á dagskrá. Birkir Blær Óðinsson spilaði og söng lag sem hann flytur í söngkeppni grunnskóla sem haldin verður í Reykjavík um næstu helgi. Einnig spilaði þjóðlagasveit Tónlistarskóla Eyjafjarðar eitt lag en hana skipa þær Sóley Anna Jónsdóttir, Áslaug María Stephensen, Eva Líney Reykdal og Kristbjörg Heiður Kristjánsdóttir.