Föstudaginn 22. janúar var árshátið unglingastigs haldin í Laugarborg. Að þessu sinni sýndu nemendur stytta útgáfu af söngleiknum Mamma mia og er óhætt að segja að frábærlega hafi tekist til. Þar sýndu nemendur hvað í þeim býr, sungu, dönsuðu, léku, sáu um sviðsmynd, tæknimál, búninga, skreytingar, leikskrá o.fl.
Áður en sýningin hófst flutti Birkir Blær lagið „I see fire“ eftir Ed Sheeran en það er framlag Hrafnagilsskóla í söngkeppni Samfés. Birkir Blær söng og spilaði á gítar og er hann verðugur fulltrúi skólans í keppninni. Að sýningu lokinni var ball þar sem nemendur skemmtu sér konunglega og voru til fyrirmyndar. Meðfylgjandi eru myndir frá þessu vel heppnaða kvöldi. Myndirnar tók Eyþór Ingi Jónsson.