Í Hrafnagilsskóla er alltaf góður andi. Þar eru skemmtilegir krakkar og frábærir kennarar. Ég hef verið í þessum skóla í tíu ár og mér finnst skólastarfið og kennslan mjög góð. Það er samt alltaf hægt að bæta eitthvað og þegar ég fór að hugsa um það sem hægt væri að bæta þá datt mér fyrst í hug fjármál.
Mér finnst við læra of lítið um fjármál. Það er mjög mikilvægt að vita hvernig á að nota peninga og þegar maður er kominn í tíunda bekk þá er maður alveg orðinn nógu gamall til þess að geta farið að skilja fjármál. Það væri t.d. sniðugt að fá eina til tvær kennslustundir á viku til þess að læra og tala um fjármál. Eins og flestir fullorðnir vita þá þarf maður að vita hvað húsnæðislán, vextir, verðtrygging og fleira er. Ef ég á að segja eins og er þá eru alltof fáir á mínum aldri sem vita hvað þetta allt saman er.
Svo langar mig að tala um vinnustundirnar á unglingastigi. Við hérna á unglingastigi fáum fjórar kennslustundir á viku í vinnustundum. Vinnustundirnar eru á þriðjudögum og fimmtudögum og þá er öllum á unglingastigi skipt í hópa og allir hópar fá einn umsjónarkennara. Á þriðjudögum vinnum við í okkar eigin áætlunum og verkefnum og getum nýtt tímann í það sem við þurfum. Þetta er góður tími til þess að reyna að klára verkefnin svo við þurfum ekki að gera þau heima. Á fimmtudögum eru vinnustundirnar aðeins öðruvísi. Þá förum við í stöðvavinnu sem virkar eins og hringekja. Hóparnir skiptast á að fara á ákveðnar stöðvar eins og t.d. útikennslu, tölvutengd verkefni, spjallhóp um kyn og lífið og fleira. Það er rosalega gott að brjóta aðeins upp hefðbundna kennslu og þetta er frábær leið til þess.
Mér finnst skólastarfið í Hrafnagilsskóla frábært og það er fátt sem að ég get sett út á. Auðvitað er alltaf hægt að bæta eitthvað en eins og er þá finnst mér allt ganga mjög vel fyrir sig og skipulagið hentar mér vel. Eins og flestir vita þá er Hrafnagilsskóli góður og skemmtilegur skóli og ég á örugglega eftir að sakna margs úr honum þegar ég lýk námi þar í vor. Langoftast gengur allt vel þar og nemendurnir eru flestir hverjir góðir vinir. Það skiptir nefnilega gríðarlega miklu máli að andinn sé góður og að allir séu vinir.
Katrín Sigurðardóttir, 10. bekk.