Skólinn minn heitir Hrafnagilsskóli og hann er inni í Eyjafjarðarsveit. Ég byrjaði bara núna í ágúst 2015 í skólanum en ég kom og prófaði skólann í október 2014 og mér leist mjög vel á hann, krakkana og kennarana.
Krakkarnir hér eru svo góð við mig, það kom mér svo á óvart hvað þau voru strax fyrsta daginn minn ótrúlega góð við mig. Ég er búin að vera í þessum skóla í um það bil 3 mánuði og mér finnst eins og ég sé búin að vera hér miklu, miklu lengur en það. Ég kynntist strax fullt af krökkum á unglingastigi og núna þekki ég þau eiginlega öll. Ég er mjög ánægð með að hafa farið í þennan skóla því það er alls ekki auðvelt að finna jafn frábæran skóla á landinu. Við í mínum bekk erum 17 en það er að koma önnur ný stelpa 2. nóvember.
Ég var í Grímseyjarskóla áður en ég flutti og fór í Hrafnagilsskóla. Í Grímseyjarskóla vorum við bara þrjú í bekk og þess vegna var það mikil breyting fyrir mig að fara í Hrafnagilsskóla í 17 manna bekk. Það er líka allt svo ólíkt í þessum skólum. Ég fæ miklu meiri hjálp í náminu í Hrafnagilsskóla og næ miklu betri tengslum við kennarana. Mér líður vel í kringum krakkana og kennarana. Mér finnst líka gott að ef mér líður illa eða ef það er eitthvað að þá get ég talað við kennarana og þau skilja mig alltaf og hjálpa mér að leysa vandamálið. Mér finnst mjög mikilvægt að ég geti talað við kennarana mína og að þeir skilji mig. Ég er svo ánægð hér í Hrafnagilsskóla og vona að ég verði alltaf svona ánægð hér.
Kolbrún Svafa – 9. bekk