Síðustu daga hefur umfjöllun fjölmiðla beinst að lestrarkennslu í skólum og þar hefur kennsluaðferðin Byrjendalæsi meðal annars verið gagnrýnd. Við í Hrafnagilsskóla nýtum þessa aðferð og höfum gert með góðum árangri frá árinu 2008. Sá samanburður sem umfjöllunin byggir á er útkoma á lesskilningshluta samræmdra prófa í 4. bekk í íslensku.  Síðustu fjögur ár hefur  árangur nemenda okkar verið yfir landsmeðaltali líkt og sjá má í meðfylgjandi töflu.  Athugið að landsmeðaltalið er 30,0.

  2011 2012 2013 2014
Heildareinkunn í íslensku 30,1 28,9 31,2 33,6
Einkunn fyrir lesskilning 31,1 32,1 31,7 33,5

 

Í Byrjendalæsi er gengið út frá því að börn fái lesefni sem kveikir áhuga þeirra, ýti undir ímyndunaraflið, hvetji þau til gagnrýninnar hugsunar og gefi þeim færi á að mynda merkingarbærar tengingar við eigið líf. Því er margs konar texti lagður til grundvallar lestrarkennslunni og hann nýttur sem efniviður í vinnu með stafi og hljóð, sem og vinnu með orðaforða, skilning, tjáningu og ritun af ýmsu tagi. Með þessari kennsluaðferð er líka verið að láta nemendur hljóða sig í gegnum orð og texta og æfa sig í að lesa eins og gert var hér áður en einnig er unnið á fjölbreyttan hátt með textann.  Á eftirfarandi slóð má finna kynningarmyndband um Byrjendalæsi https://www.youtube.com/watch?v=145lNe5nH-k,