Í síðustu viku voru þemadagar í Hrafnagilsskóla. Nemendum var skipt upp í aldursblandaða hópa og unnin voru skemmtileg verkefni bæði úti og inni. Meðal annars var útbúin stór fuglahræða sem stendur á skólalóðinni og verður framlag skólans til fuglahræðusýningar í Eyjafjarðarsveit í tengslum við Handverkshátíð. Allir nemendur skólans komu að gerð fuglahræðunnar sem er í líki tröllkerlingarinnar Kvarnar. Til er þjóðsaga um tröllasysturnar Bryðju og Kvörn sem gerist hér á austur- og vesturbakka Eyjafjarðarsveitar. Meðal annarra verkefna voru útbúnir flugdrekar og litlar fuglahræður. Einnig var grisjað í Aldísarlundi og tjákurli bætt í göngustíga.