Föstudaginn 8. maí héldu nemendur unglingastigs í Hrafnagilsskóla málþing. Málþingið var haldið á Bókasafni Eyjafjarðarsveitar og var opið starfsfólki og foreldrum.
Markmiðið með þessari vinnu var annars vegar þjálfun í ritun og hins vegar að þjálfa framsögn og framkomu. Nemendur 8. bekkjar sögðu frá áhugamálum sínum, nemendur 9. bekkjar töluðu um kosti þess og galla að vera unglingur og nemendur 10. bekkjar töluðu um hvað væri mikilvægast að kunna og geta við útskrift úr grunnskóla.
Skemmst er frá því að segja að nemendur unnu verkefni sín vel, undirbjuggu sig af kostgæfni og stóðu sig með stakri prýði á málþinginu. Allir nemendur áttu að byggja umfjöllun sína á eigin reynslu og skoðunum ásamt því að leita heimilda eða taka viðtöl. Það var gaman að hlusta á skoðanir þeirra og röksemdafærslur.