Veturinn 2006 var mildur og góður vetur, það kom lítill snjór og töluverður hiti var. Haustið var góð framlenging á sumrinu og bændur höfðu skepnur lengi úti. Þennan vetur var mikil vætutíð. Það rigndi heilu dagana, og voru menn hræddir um skriður, vegna vatna vaxtanna í fjöllunum, ár og lækir stækkuðu eins og á vori.
Svo gerðist það þann 20. desember að skriður féllu. Margar litlar skriður eða spýjur fóru hér og þar um sveitina. Stærstu skriðurnar fóru við bæina Grænuhlið og Skáldsstaði, eða við eyðibýlið Kolgrímastaði sem er í landi Skáldsstaða. Skriðurnar ullu mismiklu tjóni. Skriðan við Skáldsstaði kom langt ofan úr fjalli, hún bar mikinn aur og mikið grjót með sér. Skriðan tók mikið magn af girðingum og eyðilagði. Skriðan fór yfir veginn og lokaði honum um u.þ.b.½ kílómeter í nokkra daga. Krafturinn var þvílíkur að hún fór yfir ána og á landið hinum megin.
Skriðan við Grænuhlíð fór um sama leyti, en þetta gerðist snemma morguns, rétt áður en skólabílarnir komu til að sækja börnin og fara með þau á litlu jólin í skólanum. Grænuhlíðar skriðan var einnig stór og kraftmikil. Hún ruddi burt kálfafjósi með þeim afleiðingum að nokkrir gripir drápust. Skriðan fór einnig inn í íbúðarhúsið, en einungis í forstofu, þvottahús og eldhús. Þarna urðu miklar skemmdir á girðingum, ræktuðu landi og veginum. Vegurinn lokaðist einnig að austan verðu í nokkra daga. Þannig að framfirðingar voru lokaðir af á meðan á hreinsunum stóð. Mikið hreinsunarstarf lá fyrir í Grænuhlíð, fjarlægja þurfti dauða gripi, rífa brot og hreinsa svæðið þar sem kálfafjósið stóð og koma lifandi gripum fyrir annars staðar. Hreinsa þurfti aur úr íbúðarhúsinu en fólkið gat flutt í nærliggjandi íbúðarhús um tíma. Sveitungar og hjálparsveitin Dalbjörg tóku sig saman og unnu mikið verk þarna á nokkrum dögum.
Maður getur lítið gert þegar náttúruhamfarir verða. En mikil samstaða myndast meðal nágranna þegar svona gerist. Fólk hjálpast að við að koma hlutunum í horf, og þakkar fyrir að ekki hafi orðið slys á fólki.
Gunnar Smári Ármansson, 8. bekk