Búið er að gera úttekt á mötuneyti Hrafnagilsskóla og fékk mötuneytið fyrstu einkunn. Í úttektinni voru skoðaðir hádegismatseðlar fyrir október og nóvember 2014 – gerður af matráði Hrafnagilsskóla. Matseðlarnir náður yfir 9 vikur.
Í samantekt kemur fram að Hrafnagilsskóli sé í góðum málum með sína matseðla og eru þessir matseðlar þeir bestu sem næringarráðgjafi hefur séð hingað til. Einnig kom fram að matseðlarnir væru vel fullgildir og í samræmi við ráðleggingar Embætti landlæknis um skólamáltíðir.
Birtum við hér að neðan orðrétta samantekt Elínar Sigurborgu Harðardóttur, lögg. næringarráðgjafa.
SAMANTEKT
Undirrituð er alveg sérlega ánægð með matseðla Hrafnagilsskóla þetta árið og nokkuð ljóst að hér er verið að fara eftir fyrri ábendingum (úttektir 2007 og 2009). Athugasemdir til breytinga eru ekki margar í þetta sinn og alls ekki alvarlegar. Fjölbreytni í fæðuvali er mjög góð eins og áður hefur verið og nokkuð gott jafnvægi á milli þeirra fæðutegunda sem í boði er – í hverri máltíð, á milli daga og einnig yfir tímabilið.
Nýjustu Norrænu næringarráðleggingarnar, gefnar út haustið 2013, sem Embætti landlæknis á Íslandi tekur mið af, leggur enn áherslu á aukna neyslu á fiski. Ég hvet því til þess að á matseðlum skólans muni alltaf vera fiskur í boði 2x í viku og helsta athugasemd mín í tengslum við fiskmáltíðir er sú að það mætti sjá oftar feitan fisk í boði og kannski eilítið sjaldnar steiktan fisk. Samt sem áður þarf jú alltaf að taka tillit til þess sem gengur best að bera fram fyrir börnin. Einnig þarf matráður ætíð að standa undir því að hafa kostnað sem lægstan og feitur fiskur er alls ekki ódýr vara.
Verulega jákvætt að sjá að unnar keyptar matvörur eru afar sjaldan í boði og frekar er lögð áhersla á að blandaður, samsettur unninn matur, kjöt eða fiskur, sé heimagerður. Það er atriði sem ég hef mikið hvatt matráð mötuneytis skólans til að gera í áður gerðum matseðlaúttektum. Þegar slíkar máltíðir eru heimagerðar þá er vitað nákvæmlega HVAÐ er í matnum, sem er sérlega gott m.t.t. barna með ofnæmi eða óþol. Ekki er heldur verið að nota ýmiss aukefni (t.d. rotvarnar- og þráavarnarefni) og hægt að stýra fitu- og saltmagni.Fleira jákvætt sem ég sé er m.a.;
– grænmeti er alltaf í boði – í það eina skipti sem ekki er grænmeti, grautarmáltíð, þá er í boði ávöxtur
– ávextir alltaf í boði sem eftirmatur eftir kjötmáltíðir – en oftast spónamatur eftir fiskmáltíðir, sem er alltaf léttari í maga heldur en kjöt
– léttar máltíðir eru vel samsettar
– verulega flott að bjóða upp á heimabakað brauð – því grófara því betra
– afar sjaldan pastamáltíð – gott mál, því slíkar máltíðir geta ansi oft orðið einum of kolvetnaríkar
– mun oftar kjúklingur í boði en áður hefur verið
– frábært að sjá grænmetisrétt inni á matseðlinum
skemmtileg tilbreyting að sjá eggjaköku í boði. Egg hafa frekar verið vannýtt á matseðlum fyrir börn, en egg eru nefnilega sérlega næringarrík. Eggin hafa fallið svolítið í skuggann vegna þess hve kólesterólrík þau eru – en afar sjaldgæft er að börn og unglingar séu með hækkaðar blóðfitur og því er það í góðu lagi að bjóða upp á slíka eggjamáltíð af og til. Börn með eggjaofnæmi þurfa þá að sjálfsögðu að fá sérgerða máltíð.Hrafnagilsskóli er í góðum málum með sína matseðla og eru þetta þeir bestu sem ég hef hingað til séð. Mitt faglega mat er að matseðlarnir séu vel fullgildir og í samræmi við ráðleggingar Embætti landlæknis um skólamáltíðir.
Mínar bestu kveðjur,
Elín Sigurborg Harðardóttir, lögg. næringarráðgjafi