Í Hrafnagilsskóla eru átta valgreinar sem eru kenndar eftir hádegi alla þriðjudaga og miðvikudaga. Valgreinarnar eru skemmtilegar og ólíkar en það þýðir ekki að þær geti ekki orðið enn betri og fjölbreyttari. Valgreinarnar sem boðið er upp á nú í haust eru ljósmyndval, söngur og sviðslist, íþróttafræði, stærðfræði 102, bökunarval, hnífagerð, námsaðstoð og skrautskrift.
Ljósmyndaval er kennt af Hansa tölvukennara. Þar fá allir nemendur ákveðið ljósmyndaverkefni í byrjun tímans, einskonar yfirheiti, t.d. annað sjónarhorn, að taka migu (selfie), taka myndir af umhverfinu okkar og margt fleira. Við höfum einnig tekið að okkur spennandi ljósmyndaverkefni með tékkneskum skóla þar sem við tökum myndir í umhverfinu okkar og berum svo saman við þeirra umhverfi.
Veiðival er í höndum Óðins kennara á miðstigi. Nemendur í veiðivali hnýta flugur, horfa á veiðimyndir, læra að kasta, fara í veiðiferðir og fleira spennandi.
Söngur og sviðsframkoma eða sos eins og valgreinin er kölluð er kennd af Maríu tónmenntakennara og Auðrúnu enskukennara. Hér læra nemendur að koma fram og vera óhræddir við að vera þeir sjálfir. Þeir fara í leiki sem æfa tjáningu mismunandi tilfinninga og draga úr sviðshræðslu. Af og til eru sett upp eða tekin upp stutt leikrit. Nú er tökum á söngleiknum Annie að ljúka.
Íþróttafræði kennir Tryggvi íþróttakennari en það er valgrein sem líkist vel venjulegum íþróttum en þar er farið í allskonar boltaíþróttir, þrek og leiki. Í íþróttavali eru nemendur einnig undirbúnir fyrir skólahreysti. Í fyrravetur lenti Hrafnagilsskóli í öðru sæti.
Stærðfræði 102 er kennt af Ásu umsjónarkennara á unglingastigi. Þar eru nemendur að undirbúa sig fyrir stærðfræðinám í framhaldsskóla. Þessi valgrein er aðeins fyrir nemendur í 10. bekk sem hafa fengið hærra en 8 í meðaleinkunn í lok 9. bekkjar. Lokaprófið fer fram í VMA.
Bökunarvalið kennir Ellen heimilisfræðikennari. Þar er bakað í flest öllum tímum og nemendur fara saddir og glaðir heim.
Hnífagerð kennir Rúnar smíðakennari. Þar smíða nemendur, saga, bora og tálga allskonar spennandi hluti.
Námsaðstoð er kennd af Lilju umsjónarkennara á unglingastigi. Þar vinna nemendur í þeim fögum sem þeir þurfa mesta aðstoð með. Það er undir hverjum og einum komið hvernig þeir nýta tímana.
Skrautskriftina kennir Sigrún Rósa kennari á miðstigi. Þar læra nemendur vandaða skrift.
Til að nemendur njóti sín sem best í valgreinunum þyrfti aðstaðan að vera betri. Til dæmis þyrftu að vera góðar myndavélar í ljósmyndavali og í sos þyrftu nemendur stærra rými. Hvað fjölbreytnina varðar væri sniðugt að hafa tungumálavalgreinar eða valgreinar sem tengjast betur áhugamálum nemenda. Eins væri hægt að dreifa valgreinunum á fleiri daga til að fá meiri fjölbreytni inn á dagana. Einnig er frábært að nemendur í áttunda bekk fái að vera með í valgreinunum. Nú vona ég að þú hafir fengið smá innsæi í valgreinarnar í Hrafnagilsskóla.
Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir.
10. bekk