Í haust fór ég í fyrsta sinn í almennilegar göngur. Oft hafði ég farið stuttar vegalengdir áður. Núna fór ég inn á Branda og allt Hvassafellsfjallið að Miklagarði. Afi minn Ævar Kristinsson er gangnastjóri yfir þessum göngum en auk Branda og Hvassafellsfjalls er líka genginn Skjóldalur.
Ég tók viðtal við afa minn og bað hann að segja mér sögur af svæðinu og benda mér á kennileiti. Flestu kennileitin voru þó inni í Skjóldal en ekki þar sem ég gekk í haust. Afi sagði frá stöðum eins og Dauðsmannshól, Seli, Nauthól, Jarðfalli, Seldal og Einbúa. En einmitt þar lentu afi og yngri bróðir hans í smá ævintýri. Þeir fóru á hestum inn Skjóldal og þegar þeir voru komnir inn í Botn þá ætlaði bróðir afa að vaða yfir ána. Hann fór úr stígvélunum og sokkunum, setti sokkana ofaní stígvélin og óð út í ána. En það vildi ekki betur til en svo að hann datt kylliflatur í ána og missti stígvélin sem flutu burt niður ána. Afi fór úr sínum sokkum fyrir hann og gat bundið strigapoka utan um fæturnar á honum. Svona varð litli bróðirinn að labba allan Skjóldalinn til baka og afi berfættur í stígvélunum.
Þegar farið er í göngur þarf að vera vel nestaður, klæddur eftir veðri og vel skóaður. Ég held að það sé ekki gott að vera í stígvélum, maður týnir þeim bara í ánni. Besta nestið er það sem amma setur í bakpokann t.d. samlokur, gos og súkkulaði. Fyrir þetta verkefni fór ég á bókasafnið og fékk lánaðar nokkrar bækur hjá Möggu á bókasafninu en fann enga þjóðsögu frá akkúrat þessu svæði. En Magga lánaði mér gamla bók þar sem ég fann vísu um örnefnin í Miklagarði. Hún er svona:
Hattur, Trekt og Trafali.
Telst þar Boli og Horngrýti.
Kirkjubrekkan brött liggur.
Barðrófa og Járnhryggur.