Áður fyrr voru símar eingöngu gerðir til að hringja og senda sms. En, eins og gefur að skilja, þróast tæknin með árunum í eitthvað meira og betra.
Nú til dags eru komin allskyns leikjaforrit, frábær myndavélagæði og svo er það nú blessaða internetið sem komið er í hvern einasta síma, nema kannski gamla Nokia símann hennar mömmu. En í sjálfu sér er þetta allt bara gott og blessað, upp að vissum mörkum.
Mér finnst of margir ungir krakka vera komnir með síma. Hvað hafa þeir að gera með síma? Hvað hafa börn alveg niður í 6 ára aldur að gera með síma, eða hvað þá önnur raftæki? Þetta eru bara börn sem vita ekki betur en að ýta á hvað sem er, hvenær sem er. Þannig getur hver sem er haft samband við þau sem getur leitt til misjafnra afleiðinga.
Á þessum aldri lék ég mér í Bratz, Barbie og Petshop með eldri systrum mínum. Við lékum okkur úti í hestaleik, hlógum og höfðum gaman, án internetsins og símanna. Krakkar, eða börn, ættu ekki að hafa aðgang að símum, hvað þá að netinu. Þeir ættu heldur að leika sér saman úti og lifa lífinu, lítil og áhyggjulaus.
Unglingar verja alltof miklum tíma í símunum á daginn, jafnvel á nóttunni líka. Þeir kíkja flest allir á símana áður en þeir fara að sofa og líka um leið og þeir vakna. Talað er um að óæskilegt sé að fólk sé í tölvum eða farsímum rétt fyrir svefn því notkunin á þeim kveikir á “fight or flight” viðbrögðum sem halda þér vakandi. Þar af leiðandi sefur fólk verr en ella ef notkun raftækja af einhverju tagi er til staðar.
Það eru ekki bara unglingar sem haldnir eru “símafíkn” ef svo má að orði komast, heldur líka krakkar á aldrinum 6-12 ára. Þeir eru margir hverjir, ef ekki allir, komnir með síma, ipod, tölvu eða ipad og hanga í þeim allan liðlangan daginn. Einnig eru fullorðnir meðtaldir þó þeir haldi fram að svo sé ekki. Meðal þeirra eru þingmenn, en þar hafa komið upp þó nokkur tilvik þar sem þingmenn eru í candy crush á þingi, sem ætti ekki að eiga sér stað.
Á mínu heimili var sú regla sett, og stendur enn, að við krakkarnir fengjum ekki síma eða tölvu fyrr en eftir fermingu. Auðvitað fannst manni það ósanngjarnt á þeim tíma því allir krakkarnir í bekknum voru komnir með síma, en þegar maður lítur til baka þá er þetta sniðugasta regla og, að mínu mati, ættu fleiri foreldrar að taka hana upp.
Símar eru líka orðnir vandamál í kennslustundum í mörgum skólum. Hér í Hrafnagili er búið að setja upp hólf á bakhlið hurðanna á kennslustofum unglingastigs þar sem hver og einn nemandi á sitt hólf. Þar setja þeir símana sína í upphafi kennslustunda og þaðan fara símarnir ekki fyrr en kennslustund líkur.
Einnig hefur verið lokað netaðgangi nemenda í skólanum, því annars héngu krakkarnir inni á facebook, snapchat, instagram eða öðrum samskiptamiðlum og töluðu vart saman.
Ég er ekki að segja að banna ætti síma eða neitt þess háttar, bara að símanotkun ætti að minnka. Símar eru nefnilega frábær uppfinning, sem því miður hefur verið misnotuð.
Samkvæmt heimildum mbl.is veldur símanotkun undir stýri fleiri banaslysum en ölvunarakstur og er það grafalvarlegt mál.
En svona er heimurinn í dag og ég er hrædd um að þetta versni bara með hverju árinu sem líður.
Laufey Helga María Hlynsdóttir
10.bekkur
Hrafnagilsskóla