Í Eyjafjarðarsveit eru margir áhugaverðir staðir til að skoða. Ég fór og keyrði smá hring um Eyjafjarðarsveit og skoðaði nokkra staðina. Fyrsta stopp var Álfagallerýið. Álfagallerýið er stofnað af nokkrum handverkskonum. Í Álfagallerýinu er hægt að kaupa t.d. ullarpeysur, húfur, vettlinga og allskyns glerhluti og skart sem konurnar búa til. Á sumrin eru stundum hænur og svín fyrir utan gallerýið.
Annað stopp var svo Jólagarðurinn. Jólagarðurinn er fallegur staður þar sem alltaf eru jól. Í Jólagarðinum er Svarta húsið sem er verslun sem áður hét „Bakgarður Tante Grethe“ og var á Akureyri. Þetta er verslun með allskyns varning allt frá sultu til bollastella. Eplakofinn er með sykurhúðuð epli til sölu og voffa sem eru vöfflur á priki. Þar er líka heimsins stærsta jóladagatal, óskabrunnur ófæddra barna og jólahúsið sem er fullt af allavega jólavörum. Margir ferðamenn koma við í jólahúsinu yfir allt árið.
Sundlaugin var svo þriðja stopp. Við laugina er heitur pottur, eimbað, stór vatnsrennibraut og buslulaug fyrir krakkana en jafnframt notalegt sólbaðssvæði fyrir þá sem eldri eru.
Næsta stopp var Grundarkirkja sem er ein fallegasta kirkjan í Eyjafirði. Bóndinn á Grund, Magnús Sigurðsson byggði kirkjuna á árunum 1904-1905 fyrir eigin peninga og var hún í einkaeign þar til á síðasta ári að Aðalsteina dóttir Magnúsar gaf sókninni kirkjuna.
Næst var stoppað í Smámunasafninu í Sólgarði. Í Smámunasafninu eru allskonar hlutir en flestir tengjast byggingu húsa allt frá minnstu nöglum til skrautlegustu gluggalista og hurðahúna. Safnið hefur því stórkostlegt menningarlegt gildi fyrir okkur og komandi kynslóðir. Upphafsmaður safnsins var Sverrir Hermannsson en ýmislegt annað en það sem hann lagði til er komið núna á safnið.
Leyningshólar var næsta stopp, Leyningshólar eru innarlega í Eyjafirði og er einstök náttúruperla í sinni röð. Þar eru einu leifar af náttúrulegum birkiskógi sem eftir eru í héraðinu og ná að mynda samfelldan skóg sem vex í heillandi landslagi hóla og lauta sem myndast hafa við framhrun úr fjallinu fyrir ofan. Fyrr á árum var alltaf haldinn Leyningshóladagur í byrjun ágúst þar kom fólk úr sveitinni saman og fóru í leiki og höfðu gaman, og mjög oft var haldinn dansleikur eftir daginn.
Síðan skoðaði ég Hólsgerðislaugina. Hólsgerðislaugin er lítill náttúrupottur þar sem vatnið kemur úr heitavatns uppsprettu. Þangað fer fólk stundum og baðar sig með leyfi landeigenda.
Ég keyrði til baka og fór að skoða Freyvangsleikhúsið. Freyvangsleikhúsið er eitt af afkastamestu áhugamannaleikhúsum á landinu. Árið 1957 var fyrst sýnt leikrit á sviði félagsheimilisins Freyvangs. Í kjölfarið var stofnað Leikfélag Öngulsstaðahrepps sem síðar varð Freyvangsleikhúsið. Þar hafa oft verið sýnd mjög vinsæl leikrit t.d. Emil í Kattholti og Dýrin í hálsaskógi.
Síðasta stoppið var Kaffi Kú. Kaffi Kú er kaffihús á fjósaloftinu að Garði í Eyjafjarðarsveit. Kaffihúsið opnaði í september 2011. Hægt er að fara út á svalir sem lokað hefur verið af með gleri allan hringinn. Þessar svalir eru inn í fjósinu og hægt er að fylgjast með þegar verið er að mjólka kýrnar og horfa á kálfana.
Sólveig Lilja Einarsdóttir
nóvember 2014