Í næstu viku verða hinir árlegu þemadagar. Að þessu sinni er þemað, heilbrigði og velferð sem er einn af sex grunnþáttum skólastarfs samkvæmt nýrri aðalnámskrá. Á þemadögum verður hefðbundið skólastarf brotið upp og nemendur vinna í blönduðum hópum að ýmsum verkefnum. Meðal þess sem boðið er upp á er fjölbreytt hreyfing t.d. leikir, dans og æfingar í anda jóga. Einnig verður farið inn á  nudd og dekur, konfektgerð, söng, þjálfun með hugsanir og falleg orð og margt fleira.
Á föstudaginn verður síðan hátíðin okkar í Hrafnagilskóla á Degi íslenskrar tungu. Þá gefst foreldrum og öðrum gestum kostur á að koma klukkan 13:00 og fá að heyra og sjá afrakstur þemadaganna. Nemendur í 7. bekk hefja undirbúning fyrir Stóru upplestrarkeppnina með því að fræða okkur um Davíð Stefánsson og lesa nokkur ljóða hans.  Nemendur 10. bekkjar verða með kaffihlaðborð og er það til fjáröflunar fyrir skólaferðalag þeirra í vor. Einnig verða þeir með ýmsan annan varning til sölu.
Með von um að sjá sem flesta
Skólastjórnendur