Dagur barnabókarinnar er haldinn 2. apríl ár hvert en sökum þess að hann ber nú upp á laugardag munum við halda upp á hann á fimmtudaginn 31. mars næst komandi.

Nú leggjast margir á eitt, þeir sem koma að barnabókum og barnamenningu, og fara í samstarf við íslenskan rithöfund og ríkisútvarpið um hlustun á frumsamið íslenskt efni.

Í ár varð Kristín Helga Gunnarsdóttir fyrir valinu og mun hún lesa söguna Hörpuslátt. Flutningur fer fram klukkan 9:45 og er mikilvægt að allir hlusti og helst á þessum tíma en vissulega er hægt að nýta vef ruv.is og hlusta síðar en þá er hætt við að verkefnið missi marks. Sagan er um 10 – 12 mínútur í flutningi en með henni verða umræðupunktar sem upplagt er fyrir alla kennara að nýta. Með aðkomu skólasafna grunnskólanna að stjórn IBBY og samstarfi við rithöfundasambandið varð þessi hugmynd til. Það að styðja við grunnskólana og styðja þá í að miðla nýju íslensku efni, stuðla að hlustun og vinnu með bókmenntir.

Því er mjög mikilvægt að allir kennarar, því öll erum við móðurmálskennarar, komi að þessu af áhuga og öllum börnum gefist kostur á að hlusta á þessum tíma, hvort sem börn eru í leikfimi, smíði eða bóklegum tímum.

Njótum þess að hlusta á sögu sem er flutt á sama tíma fyrir alla nemendur landsins á aldrinum 6 – 16 ára og segjum hvað okkur finnst.

Stjórn Félags fagfólks á skólasöfnum

 

image