Kökusala til styrktar góðu málefni

Í Hrafnagilsskóla er rætt um góðvild í aðdraganda jóla en skilgreining á henni er meðal annars að láta sér annt um velferð annarra og sýna það í verki. Undanfarin ár hafa nemendur verið hvattir til þess að leggja eitthvað af mörkum sjálfir, t.d. með því að taka af vasapeningum eða spara við sig laugardagsnammi og gefa andvirðið til hjálparstofnana. Til að gera þetta sýnilegra í hugum nemenda hafa nemendur á unglingastigi bakað stórar súkkulaðibitakökur sem þeir selja nemendum og starfsfólki skólans. Kökurnar verða seldar föstudaginn 8. desember og kostar hver kaka a.m.k. 200 krónur. Ef nemendur hafa ekki kost á að koma með peninga fá þeir eftir sem áður köku. Einnig má gefa hærri upphæð ef fólk er aflögufært. Það sem safnast verður gefið til góðs málefnis og að þessu sinni til Mæðrastyrksnefndar með ósk um að upphæðinni verði ráðstafað til þeirra sem eru hjálparþurfi.

Vonandi sjá sem flestir sér fært að taka þátt í þessu góða málefni og koma með peninga föstudaginn 8. desember.

7.desember 2017|