Nemendur á miðstigi tóku þátt í kosningum í Hrafnagilsskóla í vikunni.
Tilefni kosninganna var að velja leikrit fyrir árshátíð miðstigs sem verður 16. mars 2018. Valið stóð á milli fjögurra leikverka og var kosningin mjög formleg. Nemendur stóðu í röð frammi á gangi og fengu einungis þrír að fara inn í stofuna í einu til að kjósa. Nemendur þurftu að gera grein fyrir sér við kjörnefnd og kjósa leynilega inni í kjörklefum sem stóðu enn uppi eftir alþingiskosningarnar. Kjörseðill fór í sérstakan kjörkassa og síðan taldi kjörnefnd atkvæðin. Niðurstöðum var skilað í köku- og súluritum. Niðurstöður kosninganna urðu þær að leikritið Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur, verður sett upp af nemendum og kennurum miðstigs.