Fannar Smári2 (1) (1)Hvað er góður skóli? Jú, maður spyr sig. Hvernig eru gæði skóla mæld, er það með námsárangri nemanda eða ánægju þeirra? Ég held að báðir þessir þættir séu mikilvægir og að í rauninni sé ekki hægt að mæla gæði skóla nema með því að horfa á báða þessa þætti.

Hrafnagilsskóli er að mínu mati góð blanda af „á-unum tveimur“, það er  árangri og ánægju. Mér finnst þetta vera einstaklega góður skóli og eru margar ástæður fyrir því.

Í fyrsta lagi finnst mér þetta vera alveg passleg stærð á skóla, hann er hvorki of lítill né of stór. Hér höfum við 10-23 nemendur í hverjum bekk og aðeins einn bekk í hverjum árgangi. Þannig skapast meiri tengsl milli bekkjarfélaga og bekkjarandinn verður betri.

Einnig er mötuneytið frábært. Hollur og góður matur hvern einasta dag sem eldaður er frá grunni á staðnum ólíkt því sem virðist algengt í öðrum mötuneytum á landinu, þar sem maturinn er eldaður og síðan fluttur langar leiðir áður en hann er aftur hitaður upp. Enda fékk mötuneytið topp-einkunn í úttekt Lýðheilsustöðvar síðastliðið skólaár. Það er því ekki að undra hvað nemendur skólans eru magnaðir því eins og máltækið segir, “maður er það sem maður borðar.”

Gott samstarf hefur verið á milli Hrafnagilsskóla og Tónlistaskóla Eyjafjarðar sem gerir það að verkum að hægt er að stunda tónlistarnám á skólatíma. Þannig aukast möguleikar þeirra sem búa lengra í burtu og jafnar möguleika nemenda til tónlistarnáms, óháð búsetu.

Að sjálfsögðu eru kostir Hrafnagilsskóla mun fleiri en taldir eru upp hér að ofan þar á meðal frammúrskarandi skólaritari (allt í lagi, ég er ekki alveg hlutlaus), opinn íþróttasalur í frímínútum og fjölbreyttar valgreinar. Ég veit til dæmis ekki um annan grunnskóla sem býður uppá vélfræði.

                                            

En lengi má gott bæta. Mér finnst til dæmis að það mætti byrja daginn á að taka 20, jafnvel 30 mínútur í hreyfingu á morgnana. Þá væri íþróttasalurinn opinn og nemendur gætu farið í fótbolta,  handbolta eða hvað sem er og yrðu þeir þá ekki jafn syfjaðir í fyrsta tímanum og næsta og næsta…

Einnig fannst mér tilraunin með að bjóða uppá morgunmat í skólanum (fyrir skólatíma) ekki alvitlaus og gæti ég alveg hugsað mér að halda því áfram.

Eins og sjá má á ofanrituðu eru kostir Hrafnagilsskóla margfalt fleiri þau atriði sem þarf að mínu mati að bæta og svo ég svari spurningunni sem ég setti fram í upphafi „hvað er góður skóli?“ þá er stysta svarið einfaldlega „Hrafnagilsskóli“.