MaríaDamaleeÖll börn á aldrinum 6-16 ára á Íslandi þurfa að ganga í grunnskóla og nefnist það skólaskylda. Ekki er skólaskylda í öllum löndum en þó flestum í Norðurlöndunum. Sumir skólar eru mjög stórir á meðan aðrir eru litlir og hafa fáa nemendur og þar af leiðandi verða skólarnir mjög mismunandi. Ég hef gengið í fjölmenna grunnskóla en er núna í fámennum grunnskóla. Þegar ég kom hingað var allt svo allt öðruvísi og því mig langar að skrifa um mismuninn á milli skólanna. Ég ætla að bera saman Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit og Heiðarskóla í Keflavík.

Í Heiðarskóla eru fjölmargir krakkar og eru um 50 krakkar í hverjum árgangi. Hverjum árgangi er skipt niður í 2-3 bekki. Í Hrafnagilsskóla er bara einn bekkur í hverjum árgangi með 15-20 krökkum. Það er þægilegt að vera í fámennum skóla af því að þá þekkir maður nánast alla. Í fjölmennum skóla þá ert þú annað hvort sá sem allir þekkja og dýrka eða bara sá aðili sem enginn tekur eftir og á enga vini. Þetta er næstum því eins og í öllum þessum háskólakvikmyndum. Það sem ég elska mest við Hrafnagilsskóla er vináttan. Það er mikil vinátta í skólanum sem ég hef verið vitni af og mér finnst það svo æðisleg tilfinning. Í Heiðarskóla þá fann ég ekki neina svona tilfinningu, nema þá bara innan um vinahópinn sem ég var í.

Í báðum þessum skólum er alltaf svolítill kliður í tímum og mikið um að krakkarnir séu að rápa út um stofuna í kennslustundum. Þetta er samt eitthvað sem venst og erum við hin sem ekki erum að spjalla fljót að ná vinnufriði fyrir okkur sjálf. Heimanámið var miklu meira í Heiðarskóla, eiginlega alltof mikið. Það fór oftast þannig að krakkarnir í bekknum voru ekkert búin að læra og því meiri pirringur í kennurunum gagnvart okkur. Mér finnst heimanámið hér í Hrafnagilsskóla bara passlega mikið þó kennurunum finnist það ekki nóg.

Traust er mikilvægt og mér finnst ég geta treyst starfsfólkinu í Hrafnagilsskóla miklu meira en í Heiðarskóla. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að útskýra það en það er mun meira utanumhald gagnvart nemendum en þar sem ég var áður. Það gæti verið útaf því að mér persónulega finnst kennararnir hér í skólanum miklu skemmtilegri. Mér fannst alltaf svo erfitt að tala við starfsfólkið í Heiðarskóla. Í Hrafnagilsskóla er ég spurð þegar gengið er framhjá mér hvort sé ekki allt í lagi og ég látin vita að ef það er eitthvað að þá geti ég leitað til kennara og starfsfólks. Í Heiðarskóla var ekkert svoleiðis og varla fylgst með manni utan skólastofunnar.

Sundkennsla og íþróttakennsla er aldrei eins í tveimur mismunandi skólum. Mér finnst minna um próf í þessum greinum í Hrafnagilsskóla enda finnst mér skipta meira máli að sýna framfarir í íþróttum og sundi en að standast einhver próf með fyrirfram ákveðnum markmiðum. Því jú, öll erum við mismunandi og ekki í eins formi og því finnst mér skipta meira máli að bæta sig. Sundkennslan í Heiðarskóla er kennd í innilaug en hér á Hrafnagili í útilaug. Mér finnst það betri kostur og æðislegt að komast í heitapottinn fyrir eða eftir sundsprettinn.

Mér finnst kostur í Hrafnagilsskóla að hér er danskennsla á hverju ári.  Það var mjög lítið dansað í Heiðarskóla. Ég held að ég hafi síðast dansað þegar ég var í 6. bekk. Það má ekki gleyma dansinum, það er nefnilega gaman að dansa. Sumir vilja bara alls ekki viðurkenna það og svo eru sumir sem hreinlega þola ekki dans en það er þeirra vandamál. Auðvitað eru sum dansspor ekkert sérstaklega skemmtileg fyrir alla en að geta dansað er góður kostur.

Nú hef ég borið saman þessa tvo afskaplega mismunandi skóla. Báðir hafa þeir sína kosti og galla og alltaf er hægt að breyta og bæta skólastarfið. Ég er reynslunni ríkari en sumir sem bara klára skólagöngu sína í einum skóla. Ég hlakka til síðustu mánaða í Hrafnagilsskóla og er alveg viss um að þessi ákvörðun að koma í skólann hafi ekki verið röng. Hér er ég glöð og ánægð og nýt mín vel hér í sveitinni.

María Damalee, 10. bekk