SæunnbetriMér persónulega finnst Hrafnagilsskóli henta mér vel, hann er lítill, hér er góður andi og flestir eru vinir. Auðvitað er ekkert fullkomið, og í raun er ómögulegt fyrir skóla að vera fullkominn en mér finnst að skólastjórnendur og kennarar eigi að reyna eins og þeir geta að gera skólann eins góðan og hann getur verið, og finnst mér að það sé gert í Hrafnagilsskóla.

Félagslífið og góði andinn finnst mér eitt af því besta við þennan skóla, mikið er gert í skólanum til þess að við lærum ekki bara, heldur að við þroskumst líka félagslega og andlega. Gott dæmi um það eru vinnustundir á fimmtudögum þar sem við lærum hitt og þetta um lífið og tilveruna. Finnst mér þó að við mættum læra meira um fjármálalæsi, námstækni og félagslega hegðun í skólanum, því að sumir þurfa að læra hvernig maður hegðar sér og talar við annað fólk. Ekki er bara mjög góður andi milli nemenda heldur er líka mjög gott samband milli kennara, nemenda og starfsfólks, finnst mér. Kennarar og nemendur skemmta sér vel saman á viðburðum eins og t.d. árshátíðum og svo sem alveg eins á skólatíma.

Góð námstækni er eitt af því mikilvægasta sem skóli þarf að hafa að mínu mati, því að maður þarf að kunna hvernig maður lærir til þess að maður læri eitthvað. Það er eitthvað sem mér finnst við lærum ekki alveg nóg af, og ekki er alveg farið eftir því hvernig nemendum finnst gott að læra heldur meira hvernig kennurum finnst best að kenna. Einnig skipulag, það er kannski eitthvað sem maður ber sjálfur meiri ábyrgð á en samt þarf að vera hægt að skipuleggja sig vel með því sem maður fær í skólanum eins og t.d. skúffurnar sem við fáum fyrir námsbækurnar, sumir eru með 2-3 og sumir ekki með neina, svo er ein ekki alveg nóg fyrir allar bækurnar.

Mér finnst vera nóg af uppbroti hér í skólanum, og getur það verið mjög skemmtilegt, en mér finnst þó að það verði að passa að t.d. þemadagar verði ekki  einhæfir, og að reynt sé að setja vini saman í hóp, eða einhvern sem maður þekkir vel. Maður skilur að reynt sé að sameina skólann og eignast nýa vini, en þetta hefur alls ekki komið vel út fyrir mig og ég veit um aðra sem eru á sömu skoðun. Annað dæmi um uppbrot sem er ekki beint passlegt er dansinn, eina ástæðan að mínu mati er að maður missir af kannski mikilvægum tímum sem gætu nýst manni vel.

Hinsvegar eru uppbrot sem held ég flestir hafi gaman af, t.d. árshátíðir, valgreinar og hátíðlegar uppákomur svo sem hátíðarkvöldverðurinn. Þetta er eitthvað sem mér finnst að sameini krakkana og bekkina.

Ég gæti ekki verið glaðari með skólann, auðvitað er hægt að bæta suma hluti, en mér finnst að Hrafnagilsskóli hafi eitthvað mjög sérstakt sem ekki er að finna í öðrum skólum. Ég er ævinlega þakklát fyrir allt sem ég hef lært í Hrafnagilsskóla og allt sem ég á eftir að læra hér.