Orðið heimanám segir sig sjálft, það er nám sem okkur er ætlað að vinna heima við. Frá árinu 2005 þegar ég hóf skólagöngu mína hefur mikill óþarfa tími farið í heimanám.

Tómstunda- og íþróttastarf í dag er mjög fjölbreytt. Allflest börn æfa íþróttir eða eru í öðru skipulögðu tómstundastarfi. Ég æfi badminton, dans og á fiðlu, svo er ég einnig í KFUK og á hverju mánudagskvöldi er viðburður á vegum félagsmiðstöðvarinnar. Þetta er allt mjög skemmtilegt og ég nýt þess að mæta á fundi eða á æfingar. Öll þessi tómstunda- og íþróttastörf eru eftir skóla. Ég er oft að koma heim kl 19:30 á kvöldin eftir að hafa verið á æfingum eða fundum tengdum einhverju starfi, þá á ég eftir að vinna heimanámið og æfa mig á hljóðfæri. Þann tíma sem ég hef, þegar ég er komin heim á kvöldin áður en ég fer að sofa þarf ég að nýta í heimanámið. Mér finnst að sá tími ætti frekar að fara í að hitta vini og vera með fjölskyldunni sem er mjög mikilvægt á þeim árum sem barn er í grunnskóla. Þess vegna finnst mér mjög leiðinlegt að börn sem langar að vera í einhverskonar tómstundarstarfi, geti ekki tekið þátt í því að fullu vegna tímafreks heimanáms.

Foreldrar skólabarna eru mjög misjafnir eins og börnin sjálf. Þeir eru misklárir og misvel menntaðir. Mörg börn eiga foreldra sem geta ekki hjálpað þeim við heimalærdómin meðan önnur börn fá mikla og góða hjálp heima og geta skilað mun betri verkefnum. Menntunarstig foreldra ætti ekki að þurfa að bitna á námsframvindu barnanna.

Ég stór efast um að fullorðið fólk taki vinnuna sína með sér heim eftir langan og erfiðan vinnudag, skóli er nefnilega hellings vinna. Börn eru í skóla frá kl 8. á morgnanna til 14 á daginn, sem eru 6 klukkustundir á dag, 5 daga vikunnar. Er þessi tími ekki nægur til að mennta börnin ? Þetta eru 30 klukkustundir á viku sem barn er í skólanum, sá tími er alveg nægur að mínu mati.

Þegar ég kem heim eftir skóla er svo margt annað sem ég þarf og langar að gera annað en að læra heima. Gaman væri að geta notið frítímans betur og haft minni áhyggjur af yfirgripsmiklu heimanámi.

 

Valdís Sigurðardóttir
10.bekkur